|
:: 09 febrúar, 2006 ::
Þrátt fyrir að eiga að vera niðursokkinn í greinar, bækur og skrif alla daga get ég samt lesið þegar ég kem heim. Fyrir áramótin las ég mest enskar froðubókmenntir en um jólin tók ég með mér slatta af bókum að heiman, bæði það sem ég fékk í jólagjöf og það sem ég átti fyrir.
Í gær var ég einmitt að klára eina jólagjöfina, bókina um Jörund Hundadagakonung eftir Söru Blackwell (eða Blakewell, man það ekki svo glöggt). Í íslenskum frásögnum er oftast gert hálfgert grín að þessum manni sem gerði valdaránstilraun á Íslandi í júní 1809. Satt er að hann virðist hafa verið draumóramaður, ögn blautur og einnig gefinn fyrir peningaspil. Hins vegar virðist hann hafa verið góður maður, hraustur og viljað íslendingum einungis hið besta.
Hann var dani en ekki breti eins og margir halda, hafði ýmugst á dönum (eins og margir góðir menn), taldi breta og breska heimsveldið hins vegar vera til fyrirmyndar í flestu fyrir utan kannski að leggja næstum Kaupmannahöfn við jörðu í tilgangslausri árás 1807. Hann þvældist um hnöttin vítt og breytt, prófaði margt og skráði það niður samviskusamlega og það eru þau skrif sem eru notuð til grundvallar bókinni sem ég var að klára.
Ég mæli með því að þið fáið ykkur þessa bók, annað hvort á bókasafninu eða kaupið hana. Ef þið nenni ekki að lesa heila bók, kíkið á http://is.wikipedia.org/wiki/Jörundur_hundadagakonungur þar sem er að finna ágætis samantekt um ævi hans. Þarna finnst mér samt vera full mikil áhersla lögð á að hann hafi verið spilafíkill, drykkjusjúklingur og fangi. Hann var það vissulega, en ævisagan dregur fram af hverju hann var fangi og ólíkt öðrum föngum hafði hann mikla ábyrgðartilfinningu og gekk fram oft sem hetja þegar hann kannaði óbyggðir Tazmaníu, sigldi um Atlantshafið og tók þátt í styrjöldinni við Breta.
:: Jón Grétar 17:37 [+] ::
...
|